Sumarfrí

Starfsárinu 2011-2012 er nú formlega lokið og við tekur sumarfrí.

Æfingar hefjast svo aftur með haustinu, í byrjun september.

Hann á afmæli í dag!

Ungi maðurinn hér á myndinni á afmæli í dag – og það ekkert smá afmæli.

Helgi Bragason, uppáhaldsstjórnandinn okkar er orðinn sextugur.

Til hamingju með afmælið, Helgi!

Vorið kallar

Starfsemin verður með minna móti nú í maí, að loknum vel heppnuðum tónleikum í Norðurljósasal Hörpu.

Miðvikudagana 2., 9. og 16. maí verða engar æfingar.

En miðvikudaginn 23. maí verður stutt æfing og hittingur á venjulegum æfingatíma, þar sem kórfélagar verða upplýstir um verkefni næsta vetrar.

Þá gefst einnig tækifæri til að skila nótum úr möppunum.

Sálmar bandarískra blökkumanna

Sú gríðarlega flóra tónlistar sem er til staðar í Bandaríkjunum í dag er að mestu leiti að þakka þeirri tónlistarhefð sem svartir þrælar höfðu með sér frá Afríku. Þrælasalar náðu sér í fórnarlömb vítt og breytt um Afríku. Fangarnir gátu ekki tekið neina hluti með sér en það sem þeir gátu tekið með sér var sú hefð og menning sem var þeim í blóð borinn.

Það var tónlistin sem styrkti og huggaði hina svörtu þræla í gegnum hina erfiðu og löngu þrautargöngu þrælahalds. Fólkið dansaði og söng og spilaði á hljóðfæri. Og þrátt fyrir að hinir hvítu litu ekki á hina svörtu þræla sem jafninga þá er ljóst að sú tónlistarhefð sem hinir svörtu afríkubúar tóku með sér til Ameríku hafði að endingu gríðarleg áhrif á alla tónlistarmenningu heimsins.

Sálmarnir eru hin eiginlega rót sem gospel-tónlist, blues, jazz og seinna rock og síðan öll dægurtónlist  byggja á.

Kammerkór Hafnarfjarðar ásamt Kristjönu Stefánsdóttur, söngkonu, Kjartani Valdemarssyni, píanóleikara, Kristni Snæ Agnarsyni, slagverksleikara og Jóni Rafnssyni, kontrabassaleikara verða með tónleika í Norðurljósasal Hörpu þar sem einungis verða fluttir sálmar bandarískra blökkumanna.

Tónleikarnir eru sunnudaginn 29. apríl kl. 16.00 og er hægt að kaupa miða á harpa.is.

Við minnum einnig á að hægt er að gerast styrktarfélagi kammerkórsins. Fyrir 6.000 krónur fær styrktarfélagi tvo miða á næstu þrenna tónleika kórsins. Nánari upplýsingar eru á styrktarfélagasíðunni.

Árshátíð á laugardaginn

Hin langþráða ársátíð Kammerkórs Hafnarfjarðar verður haldin næstkomandi laugardag, 17. mars, og hefst gleðin klukkan 19:00. Árshátíðarnefndin hefur unnið hörðum höndum undanfarnar vikur við að gera hátíðina sem glæsilegasta í alla staði og verður ekkert til sparað í þeim efnum.

En allt kostar þetta eitthvað. Svossum eins og 3000 krónur. Kórfélagar sem ekki eru búnir að borga árshátíðarmiðana fá tækifæri fram til þriðjudagsins 13. mars til að ganga frá greiðslunum.

Elfa, formaður skemmtinefndarinnar, gefur kórfélögum upplýsingar um reikningsnúmer og kennitölu til að leggja peninginn inn á.

Messa á sunnudaginn

Næstkomandi sunnudag, 11. mars, mun kammerkórinn syngja við messu í Landakotskirkju. Sungnar verða þrjár mótettur: O nata lux de lumine og Te lucis ante terminum eftir Thomas Tallis og Miserere mei Deus eftir William Byrd.

Messan hefst klukkan 10:30 á sunnudagsmorguninn og er öllum velkomið að mæta og hlusta.

Árshátíð framundan

Það væri til lítils að vera í þessum kór ef það væri bara fyrir sönginn. Söngurinn er vissulega stór partur af þessu öllu saman, en menn verða líka að kunna að skemmta sér. Og til að kórfélagar fái útrás fyrir skemmtanaþörfina verður haldin árshátíð fljótlega. Kórfélagar eru því vinsamlegast beðnir um að taka frá laugardagskvöldið 17. mars, en það er einmitt kvöldið sem gleðskapurinn fer fram.

Elfa og félagar í skemmtinefndinni munu veita kórfélögum nánari upplýsingar og fyrirmæli þegar nær dregur.

Desemberdagskráin

Vel heppnaðri aðventu- og jólatónleikatörn er nú lokið. En því fer fjarri að kórinn sé kominn í jólafrí, því ýmislegt er framundan í desember.

Laugardaginn 3. desember verða haldin Syngjandi jól í Hafnarborg. Þá koma saman 24 kórar sem samanstanda af söngfólki á öllum aldri. Kammerkórinn syngur klukkan 16:40-17:00.

Á Þorláksmessukvöld, 23. desember, verður farið í kyndilgöngu um miðbæ Hafnarfjarðar. Lagt verður af stað frá Fríkirkjunni kl. 19:30 en göngunni lýkur í Jólaþorpinu. Kórfélagar munu leiða sönginn í göngunni samkvæmt venju síðustu ára.

Á aðfangadag, 24. desember, mun kórinn svo syngja í sjúkrahúsmessu á Kleppi, eins og gert hefur verið undanfarin ár. Helgistundin hefst klukkan 14:00 á aðfangadag.