Suðræn sveifla

Misa Criolla og Navidad nuestra eftir Ariel Ramirez. Tónleikar 3. desember 2019
Misa Criolla og Navidad nuestra. Tónleikar 3. desember 2019

Kammerkór Hafnarfjarðar heldur sína árlegu aðventutónleika þriðjudaginn 3. desember kl. 20:00.

Kórinn verður í suður-amerískri sveiflu að þessu sinni. Á dagskrá tónleikanna eru þrjú verk eftir argentínska tónskáldið Ariel Ramírez: Misa Criolla, Navidad nuestra og Alfonsina y el Mar.

Einsöngvari á tónleikunum er Margrét Hrafnsdóttir sópran. Auk hennar kemur fram sjö manna hljómsveit sem aðstoðar kórinn við að ná fram suðrænni og seiðandi stemmningu.

Stjórnandi kórsins er sem fyrr Helgi Bragason.

Miðaverð er 3500 krónur. Miða má nálgast hjá kórfélögum fram að tónleikadegi, eða á vef kórsins, kammerkor.is. Þar má einnig gerast styrktarfélagi kórsins. Þannig fást tvennir miðar á næstu þrenna tónleika kórsins fyrir 6500 króna árgjald.

Viðburður á Facebook.

Um höfundinn og verkin

Ariel Ramírez (1921-2010) fæddist í borginni Santa Fe í Argentínu. Þar hóf hann píanónám. Hann heillaðist snemma af tónlist ýmissa argentínskra þjóðarbrota, eins og Kreólanna.

Misa Criolla (Kreólsk messa) er samin árið 1963. Hún er undir sterkum áhrifum frá suður-amerískri þjóðlagahefð, einkum argentínskum takti og laglínum. Hún er sungin með hinum hefðbundna messutexta, nema trúarjátningin er í styttri útgáfu.

Navidad nuestra (Fæðingin okkar) er samin árið 1964. Þar er jólaguðspjallið sagt í sex köflum. Hún er sömuleiðis samin undir áhrifum frá suður-amerískum þjóðlögum.

Alfonsina y el Mar (Alfonsina og hafið) er tileinkað argentínsku skáldkonunni Alfonsina Storni sem endaði líf sitt þegar hún gekk í sjóinn árið 1938.

Vortónleikar kammerkórsins

Ola Gjeilo: The Ground.
Tekið upp á æfingu 8. maí.

Kammerkór Hafnarfjarðar fer til höfuðborgarinnar sunnudaginn 19. maí og heldur vortónleika í Háteigskirkju kl. 20:00.

Á efnisskránni verða róleg og rómantísk verk úr ýmsum áttum, sem flest hafa verið samin eða útsett á síðustu 25 árum. Meðal annars verða sungin verk eftir Morten Lauridsen, Ola Gjeilo, Arvo Pärt, Pärt Uusberg, Ērik Ešenvalds og fleiri tónskáld.

Auk þess að láta tónlistarhæfileika sína í ljós fá kórfélagar að sýna hvað í þeim býr á tungumálasviðinu, því á tónleikunum munu hljóma samtals tíu tungumál, þar á meðal eistneska, xhosa, samíska og álfatunga.

Píanóleikari á tónleikunum er Ástriður Alda Sigurðardóttir. Stjórnandi kórsins er sem fyrr Helgi Bragason.

Miðaverð er 2500 krónur en 1500 krónur fyrir eldri borgara.

Miða má kaupa í forsölu hjá kórfélögum eða við innganginn fyrir tónleika. Einnig er minnt á að hægt er að gerast styrktarfélagi og fá þannig tvo miða á næstu þrenna tónleika kórsins. Nánari upplýsingar eru á styrktarfélagasíðunni.

Kammerkór Hafnarfjarðar í desember 2018.
Kammerkór Hafnarfjarðar í Hörpu.

Kammerkórinn í Hörpu

Laugardaginn 1. desember tekur Kammerkórinn þátt í Afmælissöng Landssambands blandaðra kóra. Afmælissöngurinn fer fram í Hörpuhorni í Hörpu og stendur yfir frá kl. 13:30 til 17:00. Kammerkórinn verður á dagskránni um kl. 14:00.

Tólf kórar koma fram þennan dag og syngur hver kór 15 mínútna dagskrá að eigin vali. Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir að staldra við lengur eða skemur yfir tónleikatímann.

Afmælissöngurinn er einnig liður í alþjóðlegum degi kórsöngs, World Choral Day, sem alþjóðlegu kórasamtökin IFCM standa að.

Viðburðurinn á Facebook.

Upphaf aðventu í rólegheitum

Aðventu- og jólatónleikar Kammerkórs Hafnarfjarðar verða haldnir í Hásölum, sal Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, þriðjudaginn 4. desember og miðvikudaginn 5. desember kl. 20:00.

Sérstakir gestir kórsins á tónleikunum eru Jóna G. Kolbrúnardóttir, sópran og Ástríður Alda Sigurðardóttir, píanóleikari.

Flutt verður úrval söng- og kórverka sem koma áheyrendum í hátíðarskap.

Að venju sitja tónleikagestir til borðs og þiggja kaffi og konfekt.

Aðgangseyrir er kr. 2.500 og 1.500 fyrir eldri borgara.

Minnt er á að alltaf er hægt að gerast styrktarfélagi kórsins. Fyrir 6500 krónur fær styrktarfélagi tvo miða á næstu þrenna tónleika kórsins. Nánari upplýsingar og eyðublað eru á styrktarfélagasíðunni.

Sacred Concert í Víðistaðakirkju

Miðvikudaginn 3. október kl. 19:30 munu Kammerkór Hafnarfjarðar og Stórsveit Hafnarfjarðar ásamt Rósu Guðrúnu Sveinsdóttur söngkonu flytja Sacred Concert eftir Duke Ellington. Tónleikarnir verða haldnir í Víðistaðakirkju. Stjórnandi á tónleikunum er Stefán Ómar Jakobsson.

Þessi útgáfa verksins er í tíu köflum sem John Høybye og Peder Pedersen völdu úr upphaflegu konsertum Dukes, sem voru þrír talsins.

Almennt miðaverð er 2500 krónur en 2000 krónur fyrir námsmenn og eldri borgara.

Einnig er minnt á að alltaf er hægt að gerast styrktarfélagi. Fyrir 6500 krónur fær styrktarfélagi tvo miða á næstu þrenna tónleika kórsins. Nánari upplýsingar og eyðublað eru á styrktarfélagasíðunni.

Vortónleikar Kammerkórs Hafnarfjarðar

Kammerkór Hafnarfjarðar heldur vortónleika í Hafnarfjarðarkirkju miðvikudaginn 6. júní kl. 20:00.

Á efnisskránni eru íslensk og erlend kórverk allt frá miðöldum fram til dagsins í dag.

Þetta eru seinni tónleikar kórsins sem haldnir verða hér á landi þetta vorið. Í júní heldur kórinn svo til Barcelona og syngur sömu efnisskrá í Sagrada Familia og í Santa Maria del Pi.

Stjórnandi Kammerkórs Hafnarfjarðar er sem fyrr Helgi Bragason.

Almennt miðaverð er 2500 kr. en 1500 krónur fyrir eldri borgara, öryrkja og námsmenn.

Einnig er minnt á að hægt er að gerast styrktarfélagi kórsins. Fyrir 6500 krónur fá styrktarfélagar tvo miða á næstu þrenna tónleika kórsins. Þannig fæst miðinn á rétt rúmlega 1000 krónur. Nánari upplýsingar eru á styrktarfélagasíðunni.

Viðburður á Facebook.

Syngjandi jól

Kammerkórinn kemur með jólin til Hafnfirðinga laugardaginn 2. desember. Þá verða haldin Syngjandi jól í Hafnarborg.

Kammerkórinn stígur á svið klukkan 15:00 og syngur 20 mínútna langa dagskrá.

Áhugasamir geta skoðað dagskrána nánar á vef Hafnarfjarðarbæjar.

Fyrsta æfing haustsins

Náðst hafa samningar við stjórnandann um að hann snúi til baka af golfvellinum – í það minnsta á miðvikudagskvöldum.

Fyrsta æfing haustsins verður því haldin í Hásölum miðvikudaginn 6. september klukkan 20:00.

Ýmislegt er á dagskrá komandi starfsárs og verður sagt frá því hér á vefnum í fyllingu tímans.

Í þeim garði enginn grætur

Vortónleikar Kammerkórs Hafnarfjarðar

Halldór Laxness, Kammerkór Hafnarfjarðar, Í þeim garði enginn grætur
Vortónleikar Kammerkórs Hafnarfjarðar 2017

Vortónleikar Kammerkórs Hafnarfjarðar verða haldnir í Hásölum, sal Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, sunnudaginn 21. maí kl. 20:00.

Á efnisskrá tónleikanna verða eingöngu fluttir textar eftir Halldór Laxness. Ljóð Halldórs hafa staðið í skugganum af skáldsögum hans, en eru engu að síður merkur þáttur af höfundarverki hans.

Mörg lög hafa verið samin við ljóð hans og verða nokkur þeirra sungin á tónleikunum.

Miðaverð er 2000 kr. en 1500 kr. fyrir eldri borgara, námsmenn og lífeyrisþega.

Einnig er minnt á að alltaf er hægt að gerast styrktarfélagi. Fyrir 6500 krónur fær styrktarfélagi tvo miða á næstu þrenna tónleika kórsins.

Eyðublað og nánari upplýsingar um greiðslufyrirkomulag eru á styrktarfélagasíðunni.