Messa á sunnudaginn

Næstkomandi sunnudag, 11. mars, mun kammerkórinn syngja við messu í Landakotskirkju. Sungnar verða þrjár mótettur: O nata lux de lumine og Te lucis ante terminum eftir Thomas Tallis og Miserere mei Deus eftir William Byrd.

Messan hefst klukkan 10:30 á sunnudagsmorguninn og er öllum velkomið að mæta og hlusta.

Desemberdagskráin

Vel heppnaðri aðventu- og jólatónleikatörn er nú lokið. En því fer fjarri að kórinn sé kominn í jólafrí, því ýmislegt er framundan í desember.

Laugardaginn 3. desember verða haldin Syngjandi jól í Hafnarborg. Þá koma saman 24 kórar sem samanstanda af söngfólki á öllum aldri. Kammerkórinn syngur klukkan 16:40-17:00.

Á Þorláksmessukvöld, 23. desember, verður farið í kyndilgöngu um miðbæ Hafnarfjarðar. Lagt verður af stað frá Fríkirkjunni kl. 19:30 en göngunni lýkur í Jólaþorpinu. Kórfélagar munu leiða sönginn í göngunni samkvæmt venju síðustu ára.

Á aðfangadag, 24. desember, mun kórinn svo syngja í sjúkrahúsmessu á Kleppi, eins og gert hefur verið undanfarin ár. Helgistundin hefst klukkan 14:00 á aðfangadag.

Aðventu- og jólatónleikar Kammerkórs Hafnarfjarðar

Sökum mikillar aðsóknar á aðventu- og jólatónleika Kammerkórs Hafnarfjarðar er okkur sönn ánægja að tilkynna að líkt og í fyrra verða haldnir tvennir tónleikar.

Fyrri tónleikarnir verða haldnir þriðjudaginn 29. nóvember kl. 20:00 og síðari tónleikarnir miðvikudaginn 30. nóvember kl. 20:00.

Líkt og undanfarin ár verður sköpuð afslappandi og róleg kaffihúsastemmning með kertaljósum og hátíðlegum söng. Í hléi munu kórfélagar bjóða tónleikagestum upp á kaffi og konfekt.

Fyrir hlé verða flytur Kammerkórinn aðventu– og jólalög af ýmsu tagi.

„A Ceremony of Carols“ eftir Benjamin Britten verður svo flutt eftir hlé. Verkið samanstendur af 10 lögum við texta úr ýmsum áttum upphaflega samið fyrir drengjakór og hörpu. Britten samdi fyrstu kaflana árið 1942 og lauk við alla þættina ári síðar og var verkið frumflutt 4. desember 1943 í Wigmore Hall. Boosey & Hawkes fól svo Julius Harrison að útsetja verkið fyrir blandaðan kór og hörpu og verður sú útgáfa sungin á tónleikunum. Miðar við innganginn kosta 2.000 / 1.500 krónur.

Tónleikar: Kammerkórinn syngur uppáhaldslögin

Sunnudagskvöldið 29. maí mun Kammerkór Hafnafjarðar gramsa í nótnasafni sínu og flytja nokkur af uppáhaldslögum sínum, ný og gömul. Lögin eru af öllum stærðum og gerðum, rómantísk, dramatísk, gamansöm og allt að því drepfyndin. Létt og skemmtileg dagskrá sem enginn má láta fram hjá sér fara. Tónleikarnir fara fram í Hásölum – Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og hefjast klukkan 20.00. Aðgangseyrir er 2.000 (1.500 fyrir eldri borgara og námsmenn)

Arfur þjóðar

Sunnudaginn 27. mars mun Kammerkór Hafjarfjarðar halda sína árlegu miðsvetrartónleika. Í þetta sinn verða gestir kórsins Jazztríó Agnars Más. Tríóið skipa: Agnar Már Magnússon – píanó, Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson – kontrabassi, Matthías Hemstock – slagverk. Á tónleikunum verða flutt þjóðlög af ýmsum toga ásamt jazzhugleiðingum tengdar lögunum. Miðaverð 2.000 krónur (1.500 fyrir námsmenn og eldri borgara) Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 17.00.