Kórahátíð í Hörpu

Í tilefni 75 ára afmælis Landssambands blandaðra kóra verður efnt til kórahátíðar í Hörpu dagana 19.-20.október. Kammerkór Hafnarfjarðar tekur þátt í hátíðinni ásamt 22 öðrum kórum.

23 kórar syngja fyrir gesti og gangandi í Hörpu kl. 13:30-17:00 laugardaginn 19. október í Norðurljósum og víðs vegar um Hörpu. Kammerkórinn verður með tónleika í Norðurljósum kl. 15:20 og í  Hörpuhorni kl. 16:15. Aðgangur á þessa tónleika er ókeypis.

Síðari dag hátíðarinnar, sunnudaginn 20. október kl. 15:00, sameinast þátttakendur, samtals um 850 kórsöngvarar og syngja á hátíðartónleikum í Eldborg. Kórarnir flytja þar eigin dagskrá og sameinast svo allir í þjóðsöngnum og 4 perlum íslenskra kórbókmennta – og er þá tónleikagestum boðið að taka undir! Á tónleikunum verður frumflutt kórverk eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson.  Aðalstjórnandi hátíðarinnar er einn þekktasti kórstjóri Norðurlanda, Robert Sund.

Miðaverð á hátíðartónleika sunnudagsins er frá 3200 – 3700 kr. Hægt er að kaupa miða í gegnum heimasíðu Hörpu.

Nánari upplýsingar um kórahátíðina og LBK er hægt að nálgast á heimasíðu sambandsins.

Tónleikar á Grensásdeild

Miðvikudaginn 22. maí kl. 20:00 ætlar Kammerkórinn að heimsækja Grensásdeild Landspítalans og halda þar stutta tónleika fyrir vistmenn og starfsfólk deildarinnar.

Á þessum tónleikum verða sungin nokkur af lögunum sem sungin voru á vortónleikunum fyrr í mánuðinum.

Vorsöngvar

Vortónleikar Kammerkórs Hafnarfjarðar 2013 bera yfirskriftina Vorsöngvar. Að þessu sinni verður leitað fanga hjá Svíum, Norðmönnum, Dönum og Færeyingum. Einnig verða íslenskar kórperlur á efnisskránni.

Allir söngvarnir eru án undirleiks og fjalla þeir um fegurð vorsins, ástina og náttúruna.

Tónleikarnir verða haldnir í Ytri-Njarðvíkurkirkju miðvikudaginn 1. maí kl. 17:00 og í Hafnarborg, Hafnarfirði sunnudaginn 5. maí kl. 20:00.

Aðgangseyrir er 2000 krónur en 1500 krónur fyrir nemendur og eldri borgara.

Við tökum einnig við nýjum styrktarfélögum. Fyrir 6.000 króna áskriftargjald fást tveir miðar á þrenna tónleika kórsins. Á þann hátt fær styrktarfélaginn hvern miða á 1.000 krónur. Nánari upplýsingar eru á styrktarfélagasíðunni.

Næstu tónleikar

Næstu tónleikar kammerkórsins verða haldnir í Ytri-Njarðvíkurkirkju 1. maí klukkan 17:00 og í Hafnarborg 5. maí kl. 20:00.

Nánari upplýsingar um tónleikana koma þegar nær dregur.

Jóladagskráin

Vel heppnuð aðventu- og jólatónleikatörn er nú að baki. Áður en kórinn fer í jólafrí verða þó tveir hefðbundnir viðburðir.

Á Þorláksmessu, 23. desember, verður farið í kyndilgöngu um miðbæ Hafnarfjarðar. Gangan hefst við Fríkirkjuna klukkan 19:30 og henni lýkur í Jólaþorpinu. Kórfélagar munu leiða sönginn í göngunni, samkvæmt venju síðustu ára.

Á aðfangadag, 24. desember, mun kórinn svo syngja við stutta helgistund á Kleppi, eins og gert hefur verið undanfarin ár. Helgistundin hefst klukkan 14:00.

Fyrir þetta allt saman verður haldin æfing þriðjudaginn 18. desember. Á undan æfingunni verður haldinn fundur þar sem tekin verður ákvörðun um hugsanlega utanlandsferð árið 2013 eða 2014. Fundurinn hefst klukkan 19:30 og verður æfingin í beinu framhaldi af honum.

Upphaf aðventu í rólegheitum

Kammerkór Hafnarfjarðar heldur sína árlegu Aðventu- og jólatónleika í Hásölum þriðjudaginn 4. desember og fimmtudaginn 6. desember kl. 20:00.

Að þessu sinni flytur kórinn hinar ýmsu perlur fram að hléi.  Í hléinu verður boðið upp á kaffi og konfekt.  Eftir hlé flytur kórinn svo Navidad Nuestraeftir Aríel Ramírez ásamt Gissuri Páli Gissurarsyni, tenór og fjögurra manna hljómsveit, sem skipuð er þeim Gunnari Gunnarssyni, píanóleikara; Þresti Þorbjörnssyni, gítar- og charangoleikara; Báru Gísladóttur, kontrabassaleikara og Jóni Björgvinssyni, slagverksleikara.

Navidad Nuestra er byggt á argentínskri tónlistarhefð. Árið 2009 söng Gissur Misa criolla eftir sama höfund á tónleikum með Kammerkórnum.

Aðgangseyrir er kr. 2.000 og kr. 1.500 fyrir nemendur og eldri borgara.

Við minnum einnig á að alltaf er hægt að gerast styrktarfélagi kórsins. Fyrir 6.000 króna áskriftargjald fást tveir miðar á þrenna tónleika kórsins. Á þann hátt fær styrktarfélaginn hvern miða á 1.000 krónur. Nánari upplýsingar eru á styrktarfélagasíðunni.

Sálmar bandarískra blökkumanna

Sú gríðarlega flóra tónlistar sem er til staðar í Bandaríkjunum í dag er að mestu leiti að þakka þeirri tónlistarhefð sem svartir þrælar höfðu með sér frá Afríku. Þrælasalar náðu sér í fórnarlömb vítt og breytt um Afríku. Fangarnir gátu ekki tekið neina hluti með sér en það sem þeir gátu tekið með sér var sú hefð og menning sem var þeim í blóð borinn.

Það var tónlistin sem styrkti og huggaði hina svörtu þræla í gegnum hina erfiðu og löngu þrautargöngu þrælahalds. Fólkið dansaði og söng og spilaði á hljóðfæri. Og þrátt fyrir að hinir hvítu litu ekki á hina svörtu þræla sem jafninga þá er ljóst að sú tónlistarhefð sem hinir svörtu afríkubúar tóku með sér til Ameríku hafði að endingu gríðarleg áhrif á alla tónlistarmenningu heimsins.

Sálmarnir eru hin eiginlega rót sem gospel-tónlist, blues, jazz og seinna rock og síðan öll dægurtónlist  byggja á.

Kammerkór Hafnarfjarðar ásamt Kristjönu Stefánsdóttur, söngkonu, Kjartani Valdemarssyni, píanóleikara, Kristni Snæ Agnarsyni, slagverksleikara og Jóni Rafnssyni, kontrabassaleikara verða með tónleika í Norðurljósasal Hörpu þar sem einungis verða fluttir sálmar bandarískra blökkumanna.

Tónleikarnir eru sunnudaginn 29. apríl kl. 16.00 og er hægt að kaupa miða á harpa.is.

Við minnum einnig á að hægt er að gerast styrktarfélagi kammerkórsins. Fyrir 6.000 krónur fær styrktarfélagi tvo miða á næstu þrenna tónleika kórsins. Nánari upplýsingar eru á styrktarfélagasíðunni.