Árshátíð 2015

Árshátíð Kammerkórs Hafnarfjarðar verður haldin laugardaginn 21. febrúar í Bjarkahúsinu að Haukahrauni í Hafnarfirði. (Sjá á korti). Gleðskapurinn hefst klukkan 19:00.

Hver kórfélagi kemur með veitingar til að setja á sameiginlegt hlaðborð. Matarval er frjálst, en gott er að hafa í huga að um einskonar kvöldmat er að ræða. Einnig skal hver og einn koma með sína eigin drykki.

Þema árshátíðarinnar að þessu sinni eru hattar og höfuðföt.

Á árshátíðinni verður sýnt myndband frá Berlínarferðinni síðasta sumar. Einnig má gera ráð fyrir öðrum skemmtiatriðum.

Makar eru hjartanlega velkomnir, sem og gítarar og önnur hljóðfæri.

Árshátíð 2014

Laugardaginn 8. mars næstkomandi ætla kórfélagar að hittast, taka sér frí frá hefðbundnum kórsöng, skemmta sér saman og fagna viðburðaríku og frábæru söngári. Já, það er komið að árshátíðinni 2014.

Hún verður að þessu sinni með örlítið breyttu sniði miðað við undanfarin ár. Aðgangur er ókeypis, en hver kórfélagi þarf að mæta með veitingar til að setja á sameiginlegt hlaðborð.

Árshátíðin verður haldin að Brekkuási 16 í Hafnarfirði (Heima hjá Möggu – sjá á korti). Húsið verður opnað klukkan 20:00 og hefst dagskráin klukkan 20:30.

Makar eru hjartanlega velkomnir, sem og gítarar og önnur hljóðfæri.

Mætum og höfum gaman saman.

Árshátíð

Nú er komið að því að kórfélagar fái útrás fyrir skemmtanaþörf sína því að árshátíð kammerkórsins er á næsta leyti. Hún verður haldin laugardaginn 2. febrúar á sama stað og á síðasta ári, þ.e. í Bjarkarsalnum að Haukahrauni í Hafnarfirði (gengið inn frá suðurhlið hússins, næst leikskólanum Bjarma). (Sjá á korti).

Húsið verður opnað klukkan 19:00 og hefst borðhald klukkan 19:30. Skemmtinefndin hefur lagt nótt við dag við að gera hátíðina sem glæsilegasta. Andi Woodstock-hátíðarinnar og hippatímabilsins mun svífa yfir vötnum auk þess sem kórfélagar munu bjóða upp á úrvalsskemmtiatriði.

En allt kostar þetta eitthvað smáræði. Kórfélagar (og makar sem vilja koma með) þurfa að borga 3.250 krónur fyrir herlegheitin. Gjaldið þarf að borga í síðasta lagi þriðjudaginn 29. janúar. Elfa Sif, formaður skemmtinefndarinnar gefur upplýsingar um reikningsnúmer og kennitölu til að leggja upphæðina inn á.

Frjáls og blómleg skemmtun.
Ást, friður og rokk og ról.

Hann á afmæli í dag!

Ungi maðurinn hér á myndinni á afmæli í dag – og það ekkert smá afmæli.

Helgi Bragason, uppáhaldsstjórnandinn okkar er orðinn sextugur.

Til hamingju með afmælið, Helgi!

Árshátíð á laugardaginn

Hin langþráða ársátíð Kammerkórs Hafnarfjarðar verður haldin næstkomandi laugardag, 17. mars, og hefst gleðin klukkan 19:00. Árshátíðarnefndin hefur unnið hörðum höndum undanfarnar vikur við að gera hátíðina sem glæsilegasta í alla staði og verður ekkert til sparað í þeim efnum.

En allt kostar þetta eitthvað. Svossum eins og 3000 krónur. Kórfélagar sem ekki eru búnir að borga árshátíðarmiðana fá tækifæri fram til þriðjudagsins 13. mars til að ganga frá greiðslunum.

Elfa, formaður skemmtinefndarinnar, gefur kórfélögum upplýsingar um reikningsnúmer og kennitölu til að leggja peninginn inn á.

Árshátíð framundan

Það væri til lítils að vera í þessum kór ef það væri bara fyrir sönginn. Söngurinn er vissulega stór partur af þessu öllu saman, en menn verða líka að kunna að skemmta sér. Og til að kórfélagar fái útrás fyrir skemmtanaþörfina verður haldin árshátíð fljótlega. Kórfélagar eru því vinsamlegast beðnir um að taka frá laugardagskvöldið 17. mars, en það er einmitt kvöldið sem gleðskapurinn fer fram.

Elfa og félagar í skemmtinefndinni munu veita kórfélögum nánari upplýsingar og fyrirmæli þegar nær dregur.